Tvö íslensk vikublöð
Íslendingar í Norður-Ameríku þurftu ekki að bíða lengi eftir nýju blaði á íslensku. Innan við tveimur árum eftir að Leifur sigldi í strand var útgáfa hafin á tveimur slíkum. Þegar hér er komið sögu var Winnipeg orðin „íslenska höfuðborg“ Norður-Ameríku. Velgengni blaðanna tveggja, Heimskringlu og Lögbergs, sem bæði voru með bækistöðvar þar, er til marks um þetta.
Stefan Jonasson, ritstjóri dagblaðsins Lögberg-Heimskringla, greinir frá því hvernig blöðin tvö, Heimskringla og Lögberg, urðu til. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Í upphafi komu Heimskringla og Lögberg út vikulega. Á tíunda áratug 19. aldar fóru þau bæði úr fjórum og upp í átta síður. Blöðin höfðuðu til ólíkra hópa innan íslenska samfélagsins í Vesturheimi. Sú staðreynd að þau lifðu bæði af er til vitnis um fjölbreytileika meðal íslensku innflytjendanna í málefnum tengdum stjórnmálum, trú og félagslegum áherslum.
Stefan Jonasson ber saman ólíkan lesendahóp blaðanna tveggja, Heimskringlu og Lögbergs. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Blöðin tvö komu til móts við þarfir íslenskra innflytjenda sem dreifðust út um alla Norður-Ameríku. Blöðin tvö styrktu sjálfsmynd og sameiningkraft íslenska samfélagsins. Fjölbreytilegt efni í Heimskringlu og Lögbergi er einnig til marks um áhuga lesenda á ólíkum geirum menningar, stjórnmála og félagslegrar þátttöku í Norður-Ameríku.
Stefan Jonasson ræðir hlutverk blaðanna tveggja, Heimskringlu og Lögbergs, innan Íslendingasamfélagsins í gegnum tíðina. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Heimskringla og Lögberg áttu eftir að ganga í gegnum miklar sviptingar og lesendahópur þeirra tók miklum breytingum í tímans rás. Síðar meir léku blöðin tvö einnig lykilhlutverk í umskiptum samfélagsins frá íslensku til ensku.


