Bókmenntir á milli menningarheima
Íslensk dagblöð og trúarleg tímarit sem gefin voru út í Manitoba birtu oft á tíðum frumsamin verk eftir íslenska innflytjendur. Það átti einnig við um Freyju, tímarit Margrétar Benedicsson, sem og önnur tímarit helguð félagslegum og pólitískum málstað; því var aðeins tímaspursmál hvenær bókmenntatímarit kæmi fram á sjónarsviðið.
Fyrsta íslenska bókmenntatímaritið í Manitoba leit dagsins ljós þann fyrsta apríl árið 1893, það nefndist Öldin og var með starfsemi sína í Winnipeg. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Jón Ólafsson sem einnig var ritstjóri Heimskringlu á þessum árum. Raunar var Öldin prentuð í prentsmiðju Heimskringlu og barst áskrifendum blaðsins að kostnaðarlausu. Öldin hafði að geyma stuttar greinar, ljóð og smásögur — þýddar og frumsamdar.
Öldin kom út í tæp fjögur ár. Ári áður en blaðið hætti, 1895, birtist fyrsta tölublað Svövu. Ritstjóri þess var Gísli M. Thompson. Hann var búsettur í Gimli og hafði hleypt af stokkunum dagblaðinu Bergmálið tveimur árum fyrr. Meðal efnis í Svövu voru ritgerðir, ljóð, smásögur og lengri framhaldssögur, sumar hverjar í þýðingum. Lesendur þurftu að bíða lengi eftir öðru hefti blaðsins en það leit dagsins ljós í júlímánuði árið 1897. Framvegis kom Svava út mánaðarlega þar til síðasta hefti þess var prentað í mars, 1904.
Nokkur skammlíf bókmenntatímarit fylgdu í kjölfarið uns fyrsta hefti Syrpu kom fyrir almenningssjónir árið 1911. Blaðið var prentað í Winnipeg af Ólafi S. Thorgeirssyni. Ólafur hafði unnið sem prentari Lögberg’s til 1905 þegar hann hleypti af stokkunum sinni eigin útgáfu og prentþjónustu. Syrpa kom út fjórum sinnum á ári og var helguð frumsömdum, þýddum og endurprentuðum sögum. Síðasta heftið birtist 1922, þá hafði blaðið komið út með hálfs árs millibili um skeið, og mánaðarlega árið 1920.
Nokkrum árum síðar eða í júní 1925 kom út fyrsta hefti Sögu. Tímaritið var einnig gefið út í Winnipeg og ritstýrt af skáldinu, sagnfræðingnum og myndlistarmanninum Þorsteini Þ. Þorsteinssyni. Listrænn bakgrunnur Þorsteins kemur glöggt fram í hinni tilkomumiklu forsíðu tímaritsins. Það kom út annað hvert ár og svipaði til fyrirrennara sinna í efnisvali. Síðasta tölublað Sögu leit dagsins ljós á haustmánuðum ársins 1930.
Hið listræna handbragð Þorsteins má einnig glöggt merkja í hönnun á forsíðu Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga sem varð langlífast íslenskra tímarita af sínu tagi prentað í Manitoba. Tímaritið kom út árlega á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga og meðal efnis voru ljóð ort á íslensku og í þýðingum, leikrit og sögur samfara ritgerðum um íslenska menningu og sögu. Únitarapresturinn Rögnvaldur Pétursson var fyrsti og ritstjóri blaðsins og sá sem ritstýrði því lengst.
Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga kom út á árabilinu 1919 til 1969. Það — líkt og Öldin, Svava, Syrpa og Saga — hleypti kappi í bókmenntaframleiðslu íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku: Jóhann Magnús Bjarnason, Stephan G. Stephansson, Undína (Helga S. Baldvinsdóttir), K. N. Júlíus, Guðrún H. Finnsdóttir og Guttormur J. Guttormsson — svo aðeins fáein kunn nöfn séu nefnd — birtu öll ritsmíðar sínar reglulega í þessum tímaritum.




