Umskiptin yfir í ensku
Á ofanverðum þriðja áratug 20. aldar hafði tungumálaaðlögun íslenska samfélagsins í Manitoba staðið yfir í þónokkra áratugi. Í nóvember 1937 voru samtök sem nefndu sig Ungir Íslendingar í Winnipeg stofnuð. Samtökin samanstóðu af meðlimum sem áttu auðveldara með að tjá sig á ensku en íslensku. Hópurinn var samt sem áður áfjáður um að hlúa að sameiginlegri, íslenskri sjálfsmynd í gegnum félagslega og menningarlega viðburði.
Samtökin urðu að The Icelandic Canadian Club. Árið 1942 kom út fyrsta tölublað tímaritsins The Icelandic Canadian sem samtökin gáfu út ársfjórðungslega. Fyrsti ritstjórinn var Laura Goodman Salverson, sem hafði hlotið hin virtu bókmenntaverðlaun Kanada, The Governor General Award, bæði í flokki skáldverka og verka ævisögulegs eðlis (1937 og 1939). The Icelandic Canadian hafði að geyma frumsamdar og þýddar sögur og ljóð auk ritgerða um menningu og sögu Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Blaðið er starfrækt enn í dag og nefnist The Icelandic Connection.
Um miðjan sjötta áratug 20. aldar var íslensk bókaútgáfa í Manitoba komin að fótum fram. Nokkur trúarrit á íslensku voru enn gefin út í sveitum landsins. Eina tímaritið sem enn kom út var Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga. Það hélt áfram að koma út þar til 1968.
Á fimmta og sjötta áratugnum fækkaði einnig ört lesendum tveggja íslensku blaðanna, Heimskringlu og Lögbergs.
Stefan Jonasson, ritstjóri dagblaðsins Lögberg-Heimskringla, ræðir hvernig umskiptin úr íslensku yfir í ensku höfðu áhrif á Heimskringlu og Lögberg. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Samfélagið lyfti grettistaki til að tryggja afkomu að minnsta kosti eins af íslensku dagblöðunum í Vesturheimi.
Stefan Jonasson ræðir sameiningu Heimskringlu og Lögbergs. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Hið sameinaða blað, Lögberg-Heimskringla, er gefið út aðra hverja viku enn í dag — á prenti og í stafrænu formi. Efni þess er eingöngu á ensku. Löng saga þess er til marks um þær miklu breytingar sem íslenskir innflytjendur og afkomendur þeirra hafa upplifað á síðastliðnum 150 árum.
Stefan Jonasson talar um þær breytingar sem hið sameinaða blað hefur gengið í gegnum í gegnum árin og mun ganga í gegnum í framtíðinni. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Íslendingar í Manitoba, sem og annars staðar í Norður-Ameríku, tóku höndum saman um að umskiptin yfir í ensku yrðu með sem farsælustum hætti. Að því sögðu hefur löngun þeirra til að viðhalda, styrkja og kynna íslenska menningu, sjálfsmynd og þjóðararf verið rík allt fram á þennan dag.


