Kaupið bókina
Prentun íslenskra dagblaða, tímarita og bóka var einungis fyrsti áfangi á þeirri vegferð að koma prentgrip í hendur lesenda. Auk áskrifta áttu íslenskir lesendur þess kost að velja úr nokkrum íslenskum bókabúðum og bóksölum í Manitoba. Á þessum stöðum voru oftast nær til sölu íslensk dagblöð, tímarit og bækur sem prentaðar höfðu verið í Norður-Ameríku eða voru innfluttar frá Íslandi.
Þeir sem áttu heima á svæðinu sem nefnt var Nýja-Ísland um aldamótin gátu átt viðskipti við bókabúð í prentsmiðju Gísla M. Thompsons í Gimli og keypt þar íslenskt lesefni. The Maple Leaf Printing and Supply Company, einnig rekið af Gísla, seldi enn fremur bækur og annað prentað efni. Báðar þessar verslanir störfuðu í tæpan áratug. Nokkru síðar fór verslunin H. P. Tergensen & Sons, sem enn er starfrækt í Gimli í dag, að selja bækur.
Eins og við var að búast varð Winnipeg aðsetur fjöldi íslenskra bókabúða og bóksala. Halldór S. Bardal var til að mynda mikilvirkur bóksali í Winnipeg, hann hóf störf um miðjan tíunda áratug 19. aldar. Halldór stundaði arðsöm viðskipti á horni Elgin Avenue og Sherbrook Street þar til fyrri heimsstyrjöldin braust út.
Ólafur S. Thorgeirsson yfirgaf Lögberg árið 1905 og opnaði sína eigin prentsmiðju þar sem einnig voru seldar bækur og annað prentað efni. Prentsmiðja og bókabúð hans var fyrst um sinn staðsett fyrir aftan heimili hans á 678 Sherbrook Street. Síðar opnaði hann búð á 674 Sargent Avenue. Ólafur hélt áfram að selja bækur, þar á meðal hið geysivinsæla Almanak, þar til hann lést árið 1937.
Margur íslenskur bóksalinn í Manitoba bauð einnig upp á ýmsa aðra þjónustu handa viðskiptavinum sínum, til að mynda sérprent og bókband. Einnig höfðu þeir á boðstólum vörur á borð við hátíðar- og afmæliskort, ritföng og skólavarning. Meðal annarra mikilvægra herramanna sem tóku þátt í sölu íslenskra bóka í fylkinu má nefna Finn Jónsson, Hjálmar Gíslason, Nikulás Ottenson, Magnús Peterson og Páll Jónsson — svo fáeinir séu nefndir.
Ragnar Gislason segir frá bókabúð föður síns, Hjálmars Gíslasonar, sem og þátttöku Hjálmars í hinu skammlífa dagblaði, Voröld. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Síðasta íslenska bókabúðin í Winnipeg hét Björnsson’s Book Store. Hún var staðsett á 702 Sargent og starfrækt af Davíð Björnssyni frá fyrri hluta fimmta áratugar. Auk þess að selja bækur, á íslensku og ensku, var Davíð einnig safnari sem keypti notaðar og sjaldgæfar íslenskar bækur, tímarit og annað prentað og ritað efni.
Caroline Gunnarson starfaði um skeið sem ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu (1971–1976) og hér rifjar hún upp bókabúð Davíðs Björnssonar á Sargent Avenue í Winnipeg. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.



