Skip to main content

Deigla í útgáfu ljóðabóka

Líkt og á Íslandi var ljóðlist í aðalhlutverki í bókmenntalífi Norður-Ameríku um þessar mundir. Dagblöð og tímarit voru ekki eina leið íslenskra ljóðskálda til að ná til lesenda sinna í Manitoba. Útgáfa íslenskra ljóðabóka tók að blómstra þegar hyllti undir aldamót.

 

Titilsíða íslensku ljóðabókarinnar Kvæði með fallegu skrautletri efst, litla blómamynd í miðjunni og útgáfuupplýsingum neðst á síðunni. Nafn J. Magnúsar Bjarnasonar kemur fram, og bókin var prentuð í Winnipeg hjá McIntyre Bros. árið 1887.

Kvæði, 1887

Fyrsta íslenska ljóðabókin sem gefin var út í Manitoba var stutt, fimmtán síðna safn sem nefndist Kvæði og var gefið út í Winnipeg árið 1887. Kverið hefur að geyma þrjú kvæði eftir jafnmörg skáld: Jóhann Magnús Bjarnason, Kristin Stefánsson og Sigurð Jón Jóhannesson. Í kjölfarið voru meira en 75 íslenskar ljóðabækur gefnar út í Manitoba af vesturförum og afkomendum þeirra. Meirihluti þessara ljóðabóka kom út á árabili sem náði frá tíunda áratug 19. aldar til upphaf fjórða áratugar þeirrar tuttugustu.

 

Titilsíða gamallar íslenskrar útgáfu, prentaðrar í Winnipeg. Titillinn Hin fríða mey stendur efst á síðunni í stóru gotnesku letri, á eftir fylgir orðið kvædi og nafnið Jón Bjarnason. Fyrir neðan er lína sem tiltekur að verkið hafi verið unnið af Halldóri Halldórssyni. Textinn er miðjusettur og prentaður með svörtu bleki á aldraðan, hvítan pappír. Neðst á síðunni stendur Winnipeg, Heimskringlu prentsmiðja, 1891. Lítill límbútur sést á neðra hægra horni síðunnar.

Hin fríða mey, ljóðverk eftir Jón Kjærnested.

Prentsmiðja Lögbergs, sem síðar varð Columbia Press, prentaði um fjórðung þessara ljóðabóka. Jafnvel stærra hlutfall var prentað hjá Heimskringlu sem síðar varð The Viking Press. Þónokkur fjöldi ljóðabóka var einnig prentaður í Gimli af Gísla M. Thompson, Gísla P. Magnússyni eða Gimliprentfélaginu.

 

Íslenskar ljóðabækur sem prentaðar voru í Manitoba voru einkum eftir karla. Eitt dáðast en að sama skapi umdeildasta skáldið var Stephan G. Stephansson. Hann var kallaður „Klettafjallaskáldið“ og skoðanir hans stönguðust á við kirkjuna; þá var Stephan G. sérlega gagnrýninn á þátttöku Kanada í fyrri heimsstyrjöldinni. Margar af ljóðabókum hans voru prentaðar í Manitoba, þar á meðal fjórða og fimmta bindi tímamótaverksins Andvökur.

 

Handlituð andlitsmynd af manni með dökkt hár greitt í miðjuskil og stórt, þykkt yfirvaraskegg. Hann er klæddur dökkum jakkafötum með háum hvítum kraga og slaufu. Bakgrunnurinn sýnir mjúka tóna í blágrænum og ljósum kremlit sem gefa myndinni gamaldags, málverkslega stúdíóáferð.

Málað andlitsmynd af Stephani G. Stephanssyni úr húsi hans í Markerville, Alberta

 

Guttormur J. Guttormsson hefur oft verið kallaður „Skáld Nýja-Íslands“ og eftir hann liggur þónokkurt magn ljóðabóka sem prentaðar voru í Manitoba.

Hér má sjá brot úr heimildamyndinni „Hið dýrmæta erfðafjé“ sem Ríkissjónvarpið lét gera um Guttormur J. Guttormsson. Hægt er að horfa á viðtalið með íslenskum texta.

 

Svarthvít heilsmynd af konu sem stendur með handlegginn hvílandi á baki stóls. Hún er klædd hefðbundnum íslenskum kvenbúningi, þar á meðal dökkum kjól með svuntu, klút bundinn um hálsinn og prjónaðan skotthúfu með skúf sem hangir niður á öxlina.

Júliana Jónsdóttir

Hagalagðar eftir Júlíönu Jónsdóttur voru gefnir út í Winnipeg árið 1916. Þar var á ferð fyrsta ljóðabók sem gefin hafði verið út eftir íslenska konu í Norður-Ameríku. Ljóð eftir fleiri íslenskar konur birtust í ýmsum tímaritum sem gefin voru út í Manitoba en aðeins ein önnur ljóðabók eftir íslenska konu kom út í Norður-Ameríku — Fró eftir Kristínu Hansdóttur, prentuð í Winnipeg árið 1927.

 

Titilsíða íslensku skáldsögunnar Valið: Skáldsaga eftir Snæ Snæland, gefin út í Winnipeg árið 1898 af prentsmiðju Lögbergs. Efst á síðunni er íslensk áritun handskrifuð til Stephans G. Stephanssonar. Undir nafni höfundar eru einnig talin önnur verk hans.

Titilsíða Valið

Skáldsögur og smásagnakver voru mun sjaldgæfari í bókmenntaflórunni. Þó má nefna Valið, rómantíska skáldsögu sem gerist á Norðurlandi og kom út í Winnipeg árið 1898. Höfundur hennar, Snær Snæland (skáldanafn Kristjáns Ásgeirs Benediktssonar), var einnig þekktur fyrir vísindaskáldskap sem hann birti í formi smásagna. Kunnastur meðal skáldsagnahöfunda Vestur-Íslendinga var Jóhann Magnús Bjarnason sem gaf út allar skáldsögur sínar nema eina á Íslandi. Undantekningin er fyrsta bindi Brazilíufaranna. Sú saga var gefin út í Winnipeg árið 1905 og segir frá Íslendingum sem fluttust til Brasilíu.

 

Ljóðabækur, sem og skáldsögur og smásagnasöfn (þó í minna mæli hafi verið), voru veigamikill þáttur í landslagi íslenskra bókmennta í Norður-Ameríku. Líflegur bókmenntavettvangur sýnir glögglega vægi hefðarinnar meðal íslenskra innflytjenda og áherslunnar á varðveislu sagnaarfsins. Að sama skapi mörkuðu ljóðabækur Vestur-Íslendinga, skáldsögur þeirra og bókmenntatímarit algjörlega nýja braut fyrir íslenskar bókmenntir — áherslum sem mótuðust af reynslu þeirra sem innflytjendur.