Skip to main content

Úr predikunarstól á prentaða síðu

Kirkjan lék mikilvægt hlutverk í samfélagi Íslendinga í Norður-Ameríku. Fyrir vikið varð hún örlagavaldur í íslenskri útgáfusögu í Manitoba. Trúardeilurnar sem áttu sér stað í upphafi byggðar á Nýja-Íslandi urðu til þess að Framfari leið undir lok, svo dæmi sé tekið. Þá kemur ekki á óvart að fyrsta íslenska tímaritið sem gefið var út í fylkinu hafi verið trúarlegs eðlis.

 

Svarthvít ljósmynd af hópi 30 manna raðaðra í þrjár raðir, klæddum formlegum 19. aldar jakkafötum. Sumir sitja með krosslagða fætur á gólfinu í fremstu röð, aðrir sitja á stólum í miðröð, og aftasta röðin stendur. Flestir eru með yfirvaraskegg eða skegg og hafa alvarlegt svipmót. Fyrir neðan myndina er áletrun á íslensku sem listar nöfn allra einstaklinganna, þar á meðal Fr. J. Bergmann, St. G. Stephanson og Ólafur Guðmundsson. Bakgrunnurinn sýnir einfalt gardínudraperí.

Íslensk-kanadísk klerkastétt ásamt forkólfum í samfélaginu

 

 

Sögulegt handskrifað skjal á gulnuðum, aldraðum pappír með fallegri skrautrithönd í dökku bleki. Textinn er skrifaður á ská yfir efri hluta blaðsins. Neðst hægra megin er rautt vax innsigli, að hluta til þrýst á pappírinn, sem bendir til þess að um opinbert eða lagalegt skjal sé að ræða. Blaðið er að öðru leyti autt, með vægum brotum og daufum öldrunarblettum.

Fæðingarvottorð Séra Jóns Bjarnasonar.

Fyrsta tölublað Sameiningarinnar, mánaðarlegs tímarits sem gefið var út af hinu lúterska kirkjufélagi Íslendinga í Vesturheimi birtist í mars, 1886. Það var prentað í Winnipeg og ritstýrt af séra Jóni Bjarnasyni, sem fluttist til Winnipeg árið 1884 og þjónaði sem prestur í The First Lutheran Church. Sameiningin innihélt predikanir, stuttar greinar, ljóð og annað efni í trúarlegum anda. Tímaritið var aðallega vettvangur fyrir Jón til að koma á framfæri skoðunum sínum og hugleiðingum.

 

Svarthvít andlitsmynd af manni, tekin frá herðum og upp. Hann er klæddur dökkum jakkafötum, með háan kraga og bindi. Hann er með yfirvaraskegg og alvarlegan svip. Nafn hans, séra Magnús J. Skaptason, er prentað fyrir neðan ljósmyndina.

Séra Magnús J. Skaptason

Árið 1891 varð atburður sem setti svip sinn á allt trúarlegt líf meðal Íslendinganna. Séra Magnús J. Skaptason hafði komið fjórum árum fyrr til að þjóna sex lúterskum prestaköllum á Nýja-Íslandi. Snemma árs 1891 flutti hann röð predikana þar sem ýmsum kennisetningum lúterskunnar er hafnað, svo sem hugmyndum um helvíti, eilífa refsingu og óskeikulleika Biblíunnar. Deilan sem af þessu varð leiddi til uppsagnar séra Magnúsar.

 

Séra Magnús og fylgismenn hans sameinuðust í kjölfarið kirkjudeild únitara sem þar með varð griðarstaður margra lesenda Heimskringlu. Í janúar árið 1893 kom Magnús Dagsbrún á fót, mánaðarlegu tímariti únítara. Það var fyrst prentað í Gimli en færði sig síðar um set til Winnipeg áður en það hætti útgáfu árið 1896. Mánaðarlegt tímarit únítara, Heimir, kom út í Winnipeg á árunum 1904 til 1914. Fyrsti og langlífasti ritstjóri þess var séra Rögnvaldur Pétursson.

 

Svarthvít andlitsmynd af manni, tekin frá herðum og upp. Hann er með snyrtilega greiðslu, klippt yfirvaraskegg og klæddur formlegum jakka með háum kraga og bindi. Nafn hans, Séra Friðrik J. Bergmann, er prentað fyrir neðan myndina.

Séra Friðrik J. Bergmann

Nokkrum árum síðar skók annað hitamál lúterskan söfnuð Íslendinga í Winnipeg. Árið 1902 þjónaði Friðrik J. Bergmann næststærsta lúterska söfnuðinum. Fjórum árum síðar, eða 1906, stóð hann að baki fyrsta tölublaðs nýs tímarits sem nefndist Breiðablik. Markmið þess var að boða hina svokölluðu „nýju guðfræði“ sem mætti mikilli andstöðu frá Jóni og öðrum í kirkjudeildinni.

 

 

Jón og Friðrik tjáðu ólíkar skoðanir sínar í ritdeilu sem fram fór á síðum Sameiningarinnar og Breiðabliks. Svo fór árið 1909 að Friðrik og allt að 7,000 manns yfirgáfu lúterska söfnuð Íslendinga. Nýi söfnuður Friðriks glímdi við margvíslega byrjunarörðugleika. Hann sameinaðist að lokum únitörum en sumir meðlima sneru aftur til lúterska söfnuðarins.

 

Dökkgul forsíða tímarits með teikningu í svörtu bleki af ungri konu, tekin frá herðum og upp, með dökkt hár og hettu á höfði. Í bakgrunni sjást tvö lítil hús, þar af kirkja hægra megin. Texti í svörtu bleki er prentaður bæði fyrir ofan og neðan myndina.

Ársrit lúterskra kvenna í Manitoba

Útgáfu Breiðabliks var hætt 1914 og séra Friðrik dó fjórum árum síðar. Jón dó 1914 en Sameiningin kom út til ársins 1964. Meðal annarra markverðra tímarita af trúarlegum toga sem prentuð voru í Manitoba í kjölfarið má nefna Aldamót (1891–1903), Ný dagsbrún (1904–1906), Stjarnan (1919–1956), Árdís (1933–1966) og Brautin (1944–1952).

 

Saga trúfélaga í íslenska innflytjendasamfélaginu er samofin sögu útgáfu í Manitoba. Tímarit af trúarlegum toga urðu að vettvangi til umræðu á trú, trúboði og útleggingum á kristilegum boðskap. Þau eru einnig til vitnis um breytingar, deilur og flokkadrætti sem urðu á þessum árum og náðu allt til útnára Íslendingasamfélagsins í Norður-Ameríku.