Í þágu barna
Um það leyti sem Vestur-Íslendingar fóru að huga að sameiginlegri sögu sinni fór að bera á djúpstæðum áhyggjum um íslenskt mál og varðveislu þess hjá komandi kynslóðum. Miklu skipti að tryggja að börn hefðu góð tök á íslensku til að glataðist ekki í nýjum heimkynnum. Útgáfa ætluð börnum var augljóslega viðbragð við þessum áhyggjum.
Fyrsta tímaritið fyrir börn sem gefið var út í Vesturheimi var aðeins óbeint ætlað þessum aldurshópi. Árið 1897 kom Björn B. Jónsson á fót Kennaranum, mánaðarlegu tímariti fyrir sunnudagsskóla og heimamenntun. Í Kennaranum birtist bæði efni sem var trúarlegs eðlis og íslenskutengt. Það kom upphaflega út í Minneota, Minnesota en færði sig um set til Winnipeg árið 1902 og þá tók Séra Niels Steingrímur Thorláksson við sem ritstjóri.
Síðasta tölublað Kennarans leit dagsins ljós í október árið 1905. Þá tók við arftaki blaðsins um skamma hríð en hann hét Börnin. Í mars 1908 kom séra Niels á fót nýju tímariti sem nefndist Framtíðin og kom út aðra hverja viku. Blaðið var skrifað handa ungum lesendahópi. Áherslurnar voru, enn á ný, trúarlegar, en jafnframt var kapp lagt á að uppfylla þörfina um íslenska menningarsjálfsmynd. Meðal efnis voru ljóð, sögur, stuttar ritgerðir, æviágrip og leikir. Framtíðin hætti eftir aðeins tveggja ára starfsemi.
Gytha Hurst, dóttir smásagnahöfundarins Guðrúnar H. Finnsdóttur og skáldsins og prentarans Gísla Jónssonar, segir frá því hvernig hún lærði íslensku. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa íslenska þýðingu þess.
Barnablaðið sem hafði mest áhrif hét Sólskin og var gefið út í Manitoba. Fyrsta tölublað blaðsins kom út 7. október, 1915. Sólskin var hluti af Lögbergi, börnin gátu klippt fyrrnefnda blaðið úr hinu síðarnefnda, og brotið það saman svo úr varð lítið fjögurra síðna blað. Stofnandi og fyrsti ritstjóri Sólskins var læknirinn, skáldið, blaðamaðurinn og pólitíski aðgerðarsinninn Sigurður Júlíus Jóhannesson, betur þekktur sem Siggi Júl.
Á síðum Sólskins var að finna ljóð, sögur, stuttar ritgerðir, æviágrip, gátur og leiki. Gjarnan voru einnig bréf sem ungir lesendur höfðu sent til blaðsins. Mörg bréfanna bárust frá Manitoba en önnur komu alla leið frá Bresku-Kólumbíu eða af ýmsum svæðum sunnan við mærin og jafnvel í einstaka tilfellum alla leið frá Íslandi.
Jorundur Eyford segir frá því hvernig hann lærði íslensku og hvernig Siggi Júl annaðist fjölskyldu hans í veikindum. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Julianna Hill segir frá því hvernig hún og bróðir hennar lærði að lesa íslensku. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.
Árið 1918 hóf Siggi Júl útgáfu nýs íslensks barnablaðs sem nefndist Sólöld. Það kom aðeins út í sex mánuði. Aftur á móti átti Baldursbrá meira láni að fagna, um var að ræða tímarit sem kom út aðra hverja viku og líktist mjög Sólskini í formi og efnistökum. Baldursbrá kom út í meira en sex ár. Slíkar útgáfur skiptu sköpum fyrir vesturfarana í viðleitni þeirra til að varðveita tungumálið fyrir komandi kynslóðir í Norður-Ameríku.




