Úr viðtali við Juliönnu Hill, 1989

Hljóðbrot: „The Winnipeg Icelanders“ – Julianna Hill, 11. september 1989, Icelandic Canadian Frón safnið, Skjalasafn Manitoba (1990-204)
Ævi: Julianna Hill fæddist í Winnipeg, Manitoba, 10. desember, 1917. Foreldrar hennar voru Antony Natsuk, af úkraínskum uppruna, og Guðrún Guðmundsdóttir frá Íslandi. Julianna lést 30. nóvember, 2002.
Lengd: 2:18
Umritun á upptöku:
Laurence Gillespie, spyrill: Mamma þín kenndi þér sem sagt að lesa á íslensku. Manstu eftir því hvernig hún bar sig að við kennsluna?
Julianna Hill: Bróðir minn var alltaf betri. Hann rúllaði þessu upp, án nokkurrar fyrirhafnar. Ég þurfti að hafa fyrir hlutunum. Mamma settist einfaldlega hjá okkur með bók í hönd og kenndi okkur. Við notuðumst við skriftartöflur í þá daga. Ég á eina niðri, litla ferhyrnda töflu. Við skrifuðum með krít. Það var hægt að stroka hana út. Mun ódýrara en að kaupa pappír.
Laurence Gillespie: Hvaða bækur var stuðst við í kennslu?
Julianna Hill: Mamma átti alls konar bækur. Hún setti sig í samband við … Það var bókabúð á Sargent Avenue þar sem hægt var að fá alls kyns barnabækur, tæki og tól. Við áttum allt sem til þurfti.
Laurence Gillespie: Hvað varstu gömul þegar þú fórst að læra að lesa á íslensku?
Julianna Hill: Ég man ekki hvenær það gerðist, það var bara alltaf hluti af lífinu. Við þurftum aldrei að setjast niður og lesa. Þetta var aldrei kvöð, ef þú skilur hvað ég á við.
Laurence Gillespie: Hvað fannst þér? Var gaman að læra að lesa?
Julianna Hill: Allt sem mamma vildi að við gerðum, það gerðum við glöð. Skilurðu hvað ég á við? En bróðir minn var svo miklu fljótari, það var skrambanum erfiðara að halda í við hann. Hann var svo fljótur að átta sig á hlutunum.
Laurence Gillespie: Eruð þið ekki jafngömul?
Julianna Hill: Jú, við erum tvíburar. Það hélt mér að verki, að hafa einhvern með mér í þessu allan tíð. En eins og ég sagði kom þetta ósköp eðlilega.
Laurence Gillespie: Manstu eftir því hvað einhverjar af þessum bókum hétu? Áttuð þið einhverjar barnabækur á íslensku?
Julianna Hill: Ó, já. Mamma kom með þær að heiman — með stafrófinu og öllum stöfunum og allt sem þurfti að læra í sambandi við stafina i og s.
Laurence Gillespie: Hvað með Baldurs Brá? Hringir sá titill einhverjum bjöllum?
Julianna Hill: Hljómar kunnuglega. Afar kunnuglega.
Laurence Gillespie: Ég held að það sé nafn á tímariti ætlað börnum sem eru að læra íslensku.
Julianna Hill: Hljómar afar kunnuglega.