Úr viðtali við Gythu Hurst, 1989

Úrdráttur úr viðtali: „The Winnipeg Icelanders“ – Gytha Hurst, spóla 1 af 2, 19. október 1989, Icelandic Canadian Frón safnið, Skjalasafn Manitoba (1990-204)
Ævi: Gytha Hurst fæddist í Winnipeg 4. ágúst, 1909. Foreldrar hennar voru Gísli Jónsson og Guðrún H. Finnsdóttir Straumfjörð, bæði úr Suður-Múlasýslu. Gytha lést 7. ágúst, 2002.
Lengd: 2:52
Umritun á upptöku:
Laurence Gillespie, spyrill: Hvernig lærðir þú að lesa?
Gytha Hurst: Íslensku?
Laurence Gillespie: Já.
Gytha Hurst: Ja, afi minn hafði nú eitthvað með það að gera. Afi minn, sem kom þegar ég var tveggja, þriggja ára eða eitthvað þar um bil. Afi var vanur að bjóða okkur börnunum upp í herbergi til sín. Og ég man að hann átti grænt koffort sem okkur þótti spennandi, við vildum vita hvað væri þar að geyma. Hann bað okkur að setjast í kjöltu sína og sagði: Nú skulum við lesa svolítið á íslensku og læra dálitla málfræði. Og við gerðum það. Síðan verðlaunaði hann okkur með piparmyntum úr koffortinu. Hann var vænn maður. Og mjög skarpur, ef maður hugsar út í það. Og hann var að koma af heimili þar sem húslestrar tíðkuðust. Þú hefur heyrt um þá, vitanlega.
Laurence Gillespie: Já.
Gytha Hurst: Þetta var það sem gömlu brýnin höfðu vanist á Íslandi. Þar var húslestur á kvöldin. Enda ekkert annað um að vera. Þannig lærðu þau að lesa og hlusta, einnig að skrifa. Svona byrjaði boltinn að rúlla, minnir mig. Málið var okkur auðvitað í blóð borið. Eins og þú veist er eina leiðin kenna börnum tungumál þegar þau eru að læra að tala og hlusta. Ég held að afi hafi komið á mikilvægum tímapunkti til okkar, og hann kenndi okkur margt. Þar fyrir utan skipti það foreldra okkar miklu að við lærðum málið. Þau voru ekki að heimta neitt, enda vissu þau að við höfðum heimavinnu að sinna og svo öllu hinu, innan og utan skólatíma. En foreldrar okkar vildu að við þekktum grundvallaratriði tungumálsins; hvernig ætti að tala rétt; framburðinn og beygingarnar. Meira að segja ættarnöfn fallbeygjast í setningu, eins og þú veist. Kennarinn kom á laugardagseftirmiðdögum og við höfum verið býsna ung, vegna þess að ég man hve svekkt við vorum að kennslan færi fram á sama tíma og skrípóblaðið kom með helgarblöðunum. Blaðið kom inn um lúguna en við þurftum að hlusta á kennarann og sýna honum tilhlýðilega virðingu.