Video clip from Our Valuable Inheritance, 1976
Mynd með leyfi frá Ríkisútvarpið (RÚV) og stafrænt unnið af Ryan Eric Johnson.
Myndskeið úr sjónvarpsþáttaseríunni Hið dýrmæta erfðafjé (1976) um íslensk-kanadíska skáldið Guttorm J. Guttormsson.
Lengd myndbands: 5:25
Lýsandi afrit:
[Myndin dofnar úr svörtu og birtir ljósmynd af ungum manni. Síðan sjást forsíður nokkurra ljóðabóka.]
Sögumaður: Ljóðlistin hefur Íslendingum lengi verið töm, og flutningur þeirra vestur um haf breytti ekki eðli þeirra í þeim efnum — nema síður væri. Og það var ekki nóg með að skáldgáfan dafnaði meðal landnemanna, heldur tóku næstu kynslóðir við. Kunnast íslenskra skálda sem fæddur er vestan hafs er Guttormur J. Guttormsson, fæddur 1878.
[Myndin dofnar yfir í konu með stutt grátt hár, í ljósbláum jakka og rauðhvítum trefli, standandi á túni.]
Sögumaður: Dóttir þessa vestur-íslenska skáldbónda, Bergljót, var því spurð hvers hún minnist helst í sambandi við föður sinn frá uppvaxtarárunum á Víðivöllum við Íslendingafljót.
Bergljót: Hann orti öll sín kvæði við vinnu. Hann geymdi þau í huganum þangað til að hann var búinn með kvæðið — þangað til að hann var ánægður með það, ég ætti að segja. Og þá skrifaði hann það niður og breytti rétt einstaka orði hér og þar. Og honum fannst það gott að vera bóndi og geta ort við vinnu. Þá hafði hann engan tíma til að sitja við borð, naga pennastangir og til að bíða eftir innblæstri. Honum fannst það gott að vera bóndi. Við unnum oft með honum á sumrin við heyskap, og við sáum varirnar hreyfast — en aldrei skrifaði hann neitt niður fyrr en hann kom inn á kvöldin og hann skrifaði stundum langt fram á nótt, og las, eða las langt fram á nótt. Þegar við vorum að vinna með honum, það var gaman að vinna með honum. Það tók hann stundum býsna lengi að taka upp eina drílu og hann kenndi okkur …
Sögumaður: Eina drílu?
Bergljót: Eina drílu. Það eru þessar litlu, að við þegar erum að heyja þá er þetta sett allt í eina drílu og svo sett upp á vagn eða heygrind. Og hann var lengi með eina drílu stundum af því þá var hann að hugsa mikið. Og hann — ég man ekki til þess hann skrifaði nokkuð tíma niður fyrr en hann var búin með kvæðið.
Viðmælandi: Heldurðu að móðir þín hafi haft mikil áhrif á hann?
Bergljót: Ó, hún var elskuleg góð kona fyrir pabba. Hún hjálpaði honum mikið og hún gerði miklu meira heldur en að … Dr. Jóhannes Pálsson sagði að: „Hún finnur allt sem bóndinn týnir.“ En hún gerði miklu meira en það — hún var ágæt kona og elskuleg. Og pabbi kenndi okkur að meta góðar bækur. Við lásum allar bestu bækurnar þegar við vorum ung — the classics. Og eins með music; það mátti ekki heyra neitt music hjá okkur nema það væri classical. Við lásum allar bestu bækurnar af því að hann alveg afsagði það að við læsum nokkuð sem væri ekki — nógu gott, já, já.
[Myndin sýnir forsíðu ljóðabókarinnar Gaman og alvara sem dofnar yfir í mynd af fjöður penna við hlið bókarinnar.]
Sögumaður: Eftir Guttorm J. Guttormsson liggur mikið efni, bæði í bundnu og óbundnu máli — einkum þó ljóð og leikrit. Magnús Jónsson, Doktor Theol, segir um Guttorm J. Guttormsson:
[Myndskeiðið sýnir tvö heiðursmerki hvort í sínum sýningarkassa og síðan skrautlega handskrifað skírteini á íslensku.]
Sögumaður: „Guttormur er ágætur hagyrðingur og leikur sér með erfiðustu hætti, vel hugkvæmur og oft gamansamur og sposkur við samlanda sína. Merkilegast er hver rammíslenskur Guttormur er í ljóðum sínum, hugsun og innsta eðli.“ Hann var boðinn til Íslands árið 1939 og fór víða um landið. Enginn mun þá hafa fundið að hér var á ferð maður sem væri fæddur og hefði alið allan sinn aldur erlendis.
[Myndin sýnir skrifborð skáldsins, með bókum og tveimur heiðursmerkjum ofan á, og síðan víðara sjónarhorn af borðinu.]
Sögumaður: Skrifborð skáldsins er nú varðveitt í Íslandsdeild bókasafns Manitóbaháskóla í Winnipeg ásamt ýmsum munum Guttorms.
[Myndskeiðið breytist í svart-hvíta, sporöskjulaga ljósmynd af ungum Guttormi í dökkum tréramma.]
Sögumaður: Frægast kvæða hans er frumbyggjaljóðið Sandy Bar. En við útför Guttorms J. Guttormssonar fór ung vestur-íslensk stúlka, Erla Gunnarsdóttir, með ljóð hans Góða nótt. Og skulum við nú heyra hana flytja brot úr því ljóði.
[Myndskeiðið dofnar yfir í hreyfingu eftir moldarvegi og flatlentum sveitabýlum með trjám í fjarska. Síðan er skipt í nærmynd af sveitabýlum og loks nærmynd af gulu blómi.]
Erla: Dúnalogn er allra átta, allir vindar geims sig nátta, nú er álfa heims að hátta, hinstu geislar slökkna skjótt, húmsins svarta silkiskýla sveipar þekjur vorra býla, upp er jörðin eins og hvíla öllu búin. Góða nótt! Upp til hvíldar er nú jörðin öllu búin. Góða nótt!
[Myndskeiðið sýnir nærmynd af konu með sítt brúnt hár og gleraugu sem stendur fyrir framan tré.]
Erla: Streym þú, himins stilling, niður, stattu við, þú næturfriður. Hugur fellur fram og biður, funheitt andvarp lyftist hljótt, hætti allra sára að svíða, sólar verði gott að bíða, þurfi enginn kulda að kvíða, komi sólskin — Góða nótt! Enginn þurfi að óttast, komi engill dagsins. Góða nótt.
[Myndskeiðið dofnar yfir í svart.]