Stefan Jonasson: Viðtal, fjórði hluti

Lengd: 2:27
Umritun á upptöku:
Stefan: Frá og með annarri og sér í lagi þriðju kynslóð eftir landaflutningana jókst þörfin fyrir fréttir um það sem var að gerast í Ottawa eða Washington, D. C. eða London á Englandi, ef út í það er farið. Enska pressan gat auðveldlega annað þessa eftirspurn fyrir samfélagið okkar. Þetta orsakaði áherslubreytingu í fréttaflutningi hjá okkur: Við fórum að einbeita okkur að því sem var að gerast í íslenska samfélaginu hér í Norður-Ameríku og miðla fréttum frá Íslandi — efni sem The Winnipeg Free Press, Tribune eða önnur enskumælandi blöð höfðu engan áhuga á. Áherslubreytingin sem átti sér stað á þessum árum var marktæk en að sama skapi stuðlaði hún að hnignun blaðanna. Þegar fréttirnar urðu minna virði varð erfiðara að afla tekna fyrir blöðin vegna þess að þessar fréttir skiptu ekki jafn miklu máli í daglegu lífi fólks og þær sem sagðar voru af meiriháttar hræringum á alþjóðavettvangi.
Þegar komið var fram á fimmta áratuginn var orðið ljóst að íslensku dagblöðin tvö áttu æ erfiðara með að haldast á starfsfólki, koma út á áætlun, hafa nægilegt efni til að fylla upp í síðufjöldann. Það var meira um fréttir af fólki úr nærumhverfinu í báðum blöðum en í síðari tíð hefur það orðið að gullnámu fyrir ættfræðinga sem geta rakið hvað forfeður þeirra voru að gera í gegnum þessar fréttir. En þegar komið var fram á fimmta áratug voru menn farnir á spá því að blöðin tvö, Heimskringla og Lögberg, myndu ekki lifa af næstu kynslóðaskipti.