Stefan Jonasson: Viðtal, fimmti hluti

Lengd: 4:29
Umritun á upptöku:
Stefan: Gerðar voru þónokkrar árangurslausar atlögur að því að sameina blöðin: Tvær eða þrjár voru gerðar síðla á fimmta áratugnum og aðrar á þeim sjötta þegar einstaklingar og hópar úr samfélaginu ræddu saman um að sameina blöðin tvö. Þessar þreifingar báru loks árangur eftir að Canada Iceland Foundation var stofnað, en litið var á sambandið sem regnhlífasamtök til að útvega styrki og fé fyrir hópa í Íslendingasamfélaginu.
Mjög fljótlega bað Lögberg um fjárstuðning til að laga bága fjárhagsstöðu sína. Canada-Iceland Foundation hafnaði umleitunum þeirra á þeim forsendum, að ef samtökin hjálpuðu Lögbergi þyrftu þau að gera slíkt hið sama fyrir Heimskringlu, tímaritið The Icelandic Canadian og fjölda annarra aðila. Sú ákvörðun að styrkja ekki Lögberg þvingaði blöðin tvö til að íhuga sameiningu alvarlega. Þannig að dr. Paul H. T. Thorlakson og þingmaðurinn Gunnar S. Solmanson [Thorvaldson] hittust og fóru með skipulögðum hætti að skoða hugsanlega sameiningu. Umleitanir þeirra hefðu sjálfsagt runnið út í sandinn, eins og fyrri umleitanir höfðu gert, ef ekki hefði verið fyrir Stefan Hansen, sem var varaforseti The Great West Life, og Séra Philip Pétursson, sem var prestur í únitarakirkjunni í Winnipeg eða Federated Church, eins og hún var þá kölluð. Þessir tveir einstaklingar höfðu eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina. Þeir deildu opinberlega á sjötta áratugnum vegna styrkja til einkaskóla í Manitoba. Þrátt fyrir að þeir ættu sér þessa fortíð féllust þessir menn á að sameina Lögberg og Heimskringla í eitt dagblað; Séra Philip gætti hagsmuna Heimskringlu og Stefan Hansen gerði það fyrir hönd Lögbergs.
Sakir þess að þeir höfðu áður deilt, þótti það til marks um styrkleika að þeir gætu sameinast um kosti þess að sameinast, og þar af leiðandi hlyti sameiningin að vera einhvers virði fyrir samfélagið. Úr varð að þessir fjórir einstaklingar voru í broddi fylkingar þeirra sem sannfærðu hluthafa í báðum dagblöðum og íslenska samfélagið um að sameining væri til bóta. Þeir bjuggu jafnframt til skilyrði fyrir ritstjóra dagblaðanna að fara í nýjar stöður og halda sinni reisn. Þannig atvikaðist að Stefán Einarsson, ritstjóri Heimskringlu, gat farið á eftirlaun eftir 32 ár í eldlínunni á meðan Einar P. Jónsson, ritstjóri Lögbergs til 22 ára varð ritstjóri sameiginlegrar útgáfu. Þannig atvikaðist að sameiningin varð á endanum mjúk og farsæl; og raunar var henni fagnað með nokkrum bravör, vegna þess að það var álit fólks að þar með væri blaðinu borgið og framtíð þess tryggð, að minnsta kosti í eina kynslóð til viðbótar.