Stefan Jonasson: Viðtal, þriðji hluti

Lengd: 4:57
Umritun:
Stefan: Eins og ég nefndi sögðu dagblöðin í upphafi fréttir af öllu því sem Vestur-Íslendingar gætu haft áhuga á og gerðu það á íslensku, en af þessu leiddi að íslenska samfélagið í Norður-Ameríku var vel upplýst. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að halda því fram að ein af ástæðum þess að Íslendingar aðlöguðust lífi í Manitoba og North Dakota, Minnesota, Washington State, Saskatchewan og hvar það nú var sem þeir settust að … Ein af meginástæðum þess að þeir aðlöguðust opinberu lífi og fóru að sækjast eftir embættum og stjórnunarstöðum — ekki aðeins í Íslendingasamfélaginu heldur í stærri samfélögunum sem þeir bjuggu í — stafaði ekki síst af því, hversu vel upplýstir þeir voru, þökk sé íslensku dagblöðunum.
Ég held að það sé líka mikilvægt að átta sig á því að leiðtogar íslenska samfélagsins bjuggu frá upphafi að óaðfinnanlegri enskukunáttu. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að lesa skrif séra Jóns Bjarnasonar og séra Björns Péturssonar á ensku, séð hvað Sigtryggur Jónasson og Baldvin L. Baldvinsson sögðu og skrifuðu ensku. Það er morgunljóst að helstu leiðtogar íslenska samfélagsins voru algerlega tvítyngdir og skrifuðu mögulega betri ensku en flest enskumælandi fólk í samtíð þeirra. Þetta gerði þeim kleift að miðla því sem var að gerast, bæði í enskumælandi heiminum og utan hans, á íslenskri tungu. Þetta tel ég að hafi verið aðalatriðið í köllun þeirra sem stjórnuðu íslensku dagblöðunum. Þetta gerði Íslendingum einnig fært að tjá sig áfram á íslensku, ef þeir kusu slíkt, eða ef þeim leið eins og þeir gætu ekki tjáð sig fyllilega á ensku. Þannig urðu íslensku blöðin að vettvangi fyrir íslenska höfunda.
Dagblöðin gerðu þessari fyrstu kynslóð svo sannarlega kleift að eiga áfram heimagengt í íslenskunni, hinu talaða og ritaða máli. Í augun annarrar kynslóðar sem ólst upp talandi íslensku og lærði ensku þegar þau fóru að ganga í almenningsskóla urðu íslensku dagblöðin að leið til að fylgjast eð fréttunum á öðru máli og það ýtti undir tvítyngi þeirra. Jafnvel þótt þau reiddu sig einkum á ensku í starfi gátu þau leitað aftur í íslenskuna og áfram lesið fréttir og bókmenntatexta á tungumálinu sem þau lærðu í æsku. Og vegna þess að Heimskringla og Lögberg voru prentuð hér í Norður-Ameríku og höfðu þess vegna ákveðinn norðurameríska keim, þá held ég að þar af leiðandi hafi þau verið orkað nokkuð aðlaðandi á aðra kynslóð Íslendinga, að hún hafi séð blöðin sem leið til að halda í við íslenskuna og það sem heyrði undir hana. Að blöðin hafi jafnvel virkað valdeflandi fyrir lestrarkunnáttu þeirra í tungumálinu.
Þegar röðin er komin að þriðju kynslóð er sambandið við íslenskuna orðið óvirkara. Þetta var einnig kynslóð sem ólst upp við það fram að skólaaldri að margir á heimilinu töluðu íslensku. Eftir það varð enskan ráðandi í lífum þeirra. Þetta var kynslóð sem var síður líkleg til að skrifa á íslensku upp á eigin spýtur án þess að vera hrædd um að málfræðilöggan kæmi og tæki þau. En þau höfðu samt þónokkra hæfni til að lesa á íslensku. Og þá breyttist, eina ferðina enn, hvernig blaðið þjónaði íslenska samfélaginu.