Stefan Jonasson: Viðtal, fyrsti hluti

Hljóð: Sýnishorn úr viðtali Katrinar Nielsdottur við Stefan Jonasson 26. febrúar, 2025
Lengd: 2:47
Umritun:
Stefan: Ég heiti Stefan Jonasson. Ég er ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu til tíu ára, ríflega tíu ára. Lögberg-Heimskringla er elsta tímarit þjóðarbrots sem gefið er út í Kanada, samkvæmt Library and Archives Canada. Því má segja að við séum í fararbroddi tímaritaútgáfu þjóðarbrota í þessu landi.
Það var árið 1886 að Lögberg-Heimskringla hóf útgáfu undir merkjum Heimskringlu. Blaðið var stofnað af Frímanni Anderson, sem jafnframt var fyrsti ritstjóri þess, og það hefur verið gefið út sem Heimskringla og síðar Lögberg-Heimskringla frá 1886. Komið hafa eyður í útgáfuna sem stöfuðu af fjárhagslegum örðugleikum. Tilvera Heimskringlu var nokkuð óstöðug fjárhagslega fyrstu tvo áratugina en blaðið lifði af. Lögberg var stofnað tveimur árum síðar af Einari Hjörleifssyni, síðar þekktur sem Einar Hjörleifsson Kvaran, afar mikilvirkur höfundur á Íslandi og í Norður-Ameríku. Hann var ritstjóri blaðsins um nokkurt skeið eftir að því hafði verið komið á fót. Raunar naut Lögberg meiri fjárhagslegs stöðugleika á upphafsárum. Fjármögnun þess var traustari. Það naut stuðnings leiðandi viðskiptajöfra í samfélaginu. Fyrir vikið var það að mörgu leyti sterkara og þar ríkti meiri nýsköpun. Það hlaut meiri útbreiðslu en Heimskringla.
Tímasetningin á stofnun blaðanna er engin tilviljun, þau koma fram á sjónarsviðið þegar íslenska samfélagið hafði verið til í Norður-Ameríku í rúman áratug og var farið að tvístrast þónokkuð. Samfélagið tvístraðist í pólitísku tilliti. Það tvístraðist í trúmálum. En það hafði verið býsna rík tilhneiging til aðlögunar í samfélaginu og því var tímasetning blaðanna tveggja fullkomin, vegna þess að þau gátu, hvort á sinn hátt, endurspeglað ólíka hagsmuni innan samfélagsins.