Koma Íslendinganna
Á árabilinu 1870–1914 fluttust meira en 16,000 Íslendingar til Norður-Ameríku eða um 20% þjóðarinnar. Fjölmargar ástæður lágu að baki flutningunum: Útbreidd fátæk, sjúkdómar sem herjuðu á sauðfénað, Öskjugos árið 1875 og válynd veður sem fylgdu í kjölfarið. Í Vesturheimi vonuðust Íslendingar eftir frama og fjárhagslegum framgangi.
Arni Sigurdsson greinir frá komu fyrstu Íslendinganna til Vesturheims. Hægt er að horfa á viðtalið með íslenskum texta.
Íslendingarnir komu á skipum yfir Atlandshafið. Lestir og vagnar óku með þá um sléttur Norður-Ameríku, gufuskip ferjuðu þá yfir vötn og ár. Fyrstu vesturfararnir settust að í Wisconsin, Nebraska og Minnesota. Norðan landamæranna settust Íslendingar að í Nova Scotia og Ontario áður en þeir héldu vestur á bóginn. Að öllu samanlögðu voru það þó svæðin sem síðar voru kennd við Manitoba sem löðuðu að sér flesta landnema.
Stjórnvöld í Kanada reyndu að laða Íslendinga til nýlendunnar sem síðar var nefnd Nýja-Ísland með loforðum um jarðnæði og betra líf. Aukinn straumur evrópskra innflytjenda auðveldaði kanadískum stjórnvöldum að stækka landnemabyggðir til vesturs.
Salome Johnson lýsir ferð fjölskyldunnar frá Íslandi til Norður-Ameríku. Hægt er að horfa á viðtalið með íslenskum texta.
Landstjóri í Kanada, Dufferin lávarður, heimsótti Nýja-Ísland árið 1877. Hann ritaði: „Hefi ég ekki komið í nokkurt það hús eða þann bjálkakofa í bygðinni, sem ekki hefir að geyma bókasafn 20 til 30 bóka, hversu annars fátæklegt og fáskrúðugt sem húsið hefir verið að öðru leyti innan veggja.“ Íslendingar voru gjarnan með prentaðar bækur eða handskrifuð handrit í fórum sínum er þeir komu vestur um haf. Þá og nú var bókmenntahefðin ófrávíkjanlegur þáttur í sjálfsmynd Íslendinga.
Landnemum á Nýja-Íslandi rann blóðið til skyldunnar að varðveita menningu, tungu og þjóðlega sjálfsmynd. Prentun íslenskra dagblaða lék veigamikið hlutverk í þeirri viðleitni. Þrátt fyrir bág kjör og margvísleg vandamál sem upp komu í byrjun, þar á meðal hina mannskæðu stórubólu, voru Vestur-Íslendingar staðráðnir í því að ná markmiðum sínum.



