Úr viðtali við Thoru Arnason, 1989

Mynd með leyfi frá Timarit.is
Hljóðbrot: „The Winnipeg Icelanders“ – Thora Arnason, spóla 3 af 3, 25. október 1989, Icelandic Canadian Frón safnið, Skjalasafn Manitoba (1990-204)
Ævi: Thora Arnason fæddist í Hænuvík, Patreksfirði, 20. október, 1905. Foreldrar hennar voru Jóhann Magnússon og Ólöf Össurardóttir, bæði úr Barðastrandarsýslu. Thora lést 1. október, 1997.
Lengd: 3:06
Umritun á viðtali:
Thora Arnason: Og síðan var ég í leikfélagi únitarakirkjunnar. Hún var með leikfélag og það var ægilega gaman. Við vorum í því, ég og Fanný systir, í mörg ár.
Laurence Gillespie, spyrill: Hvaða leikrit settuð þið upp á meðan þú varst í leikfélaginu?
Thora Arnason: Við settum upp Skugga-Sveinn og ég man ekki annað. En þetta var stór sýning.
Laurence Gillespie: Hver átti hugmyndina um að setja upp Skugga-Svein? Hefur þú einhverja hugmynd um það?
Thora Arnason: Í leikfélaginu? Fríða Danielsson frá Arborg og Ragnar Kvaran — þau voru aðalsprauturnar. Og þau settu upp mjög fín leikrit.
Laurence Gillespie: Hvaða hlutverk lékst þú í Skugga-Sveini?
Thora Arnason: Ég lék Gvend smala.
Laurence Gillespie: Gvend smala.
Thora Arnason: Já. Ha? Fáráðlinginn.
Laurence Gillespie: Og var mikið lagt í búninga?
Thora Arnason: Ó, nei. Ég var höfð í einhverjum lörfum.
Laurence Gillespie: Hvar voru sýningarnar?
Thora Arnason: Þær voru í únítarakirkjunni, í kjallaranum.
Laurence Gillespie: Fóruð þið með leikritið út fyrir Winnipeg?
Thora Arnason: Já, við fórum einu sinni til Arborg. Þar var samkeppni. Ég man ekki nafnið á leikritinu. Er ekki skrýtið að ég hafi gleymt því?
Laurence Gillespie: Hvaða rullu fannst þér áhugaverðast að leika?
Thora Arnason: Ætli það hafi ekki verið Gvendur.
Laurence Gillespie: Og þessi leikrit voru vitaskuld öll á íslensku?
Thora Arnason: Öll á íslensku, já.
Laurence Gillespie: Og hvaðan komu peningarnir til að setja upp aðra eins uppfærslu? Hvaðan komu fjárframlög?
Thora Arnason: Ég veit það ekki, ef satt skal segja, en sjálfsagt þurfti að borga fyrir sýningarétt á sumum þessara leikrita.
Laurence Gillespie: Og voru viðtökurnar góðar?
Thora Arnason: Mjög góðar. Alltaf húsfyllir. Ægilega gaman. Alls konar hlutir gerðust, því eins og þú veist verður oft handagangur í öskjunni þegar áhugafólk á í hlut. Einu sinni hafði Jón sterki mér lyft mér upp á bak, hýft mig upp. „Þegar þú setur mig niður“, sagði ég, „Þegar þú leggur mig niður“, hvíslaði ég, „vertu þá viss um að ég snúi að áhorfendum“. Þá spurði hann: „Af hverju?“. „Af hverju?“, ansaði ég: „Af því að buxurnar mínar rifnuðu og ég er í nærfötum úr satíni“.
Laurence Gillespie: Ég sé hann fyrir mér. Ja, hérna!
Thora Arnason: Það er margt sem gengur á, eins og þú getur ímyndað þér, þegar áhugaleikhópur stígur á stokk.