Stefan Jonasson: Viðtal, annar hluti

Lengd: 2:59
Umritun:
Stefan: Í pólitísku tilliti aðhylltist Heimskringla stefnu Íhaldsflokksins hér í Kanada. Trúarlega aðhylltist blaðið únitarakirkjuna og The Winnipeg Tabernacle. Það hallaðist að Heimastjórnarflokknum heima á Íslandi. Og tilliti til bandarískra lesenda mætti segja að blaðið hafi verið hliðhollt Demókrataflokknum. Lögberg var aftur á móti fylgjandi Frjálslynda flokknum hér í Kanada, það var dyggur stuðningsmaður lútersk-evangelísku kirkjudeildarinnar, hneigðist til þess sem átti eftir að verða Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi og Repúblikanaflokkurinn í bandarískum stjórnmálum. Dagblöðin tvö gátu keppt hvort við annað á forsendum þeirra ólíku áherslna sem voru uppi í íslenska samfélaginu. Og þau komu sér bæði upp álitlegum lesendahópi, þótt almennt séð hafi Lögberg verið með dyggari lesendahóp. En samkeppnin gerði það að verkum að bæði blöðin voru kraftmikil og lífleg; jafnframt gátu þau borgað reikningana sína sem var grunnforsendan fyrir velgengni blaðs á þessum tíma.
Fyrsta kynslóð Vesturfara reiddi sig á þessi dagblöð — ekki aðeins vegna frétta af málefnum tengdum Íslandi, heldur ekki síður vegna frétta blaðanna um landið sem þeir voru fluttir til og fréttum af ástand heimsmála. Á fyrstu árum blaðanna tveggja voru þau að skrifa mikið af fréttum sem hefðu eins getað birst í The Winnipeg Free Press eða The Winnipeg Tribune, fréttum sem hefðu verið í útvarpinu þegar það kom til skjalanna eða lesnar af Walter Cronkite í sjónvarpinu eftir að það varð hluti af fjölmiðlalandslaginu. Mikill fjöldi frétta í Heimskringlu og Lögbergi var af þessum toga. Vitaskuld voru þar einnig sagðar fréttir úr íslenska samfélaginu. Þau sögðu fréttir sem komu samfélaginu hérna við. Þau sögðu fréttir að heiman, en jafnframt voru þau heimild um allt milli himins og jarðar í Kanada og Bandaríkjunum og skrifaðar fyrir fólk sem talaði aðeins íslensku eða átti erfitt með að tala ensku.