Úr viðtali við Ragnar Gislason, 1989

Mynd með leyfi frá The Winnipeg Tribune, 5. mars 1975
Hljóðbrot: „The Winnipeg Icelanders“ – Ragnar Gíslason, spóla 1 af 5, 13. febrúar 1989, Icelandic Canadian Frón safnið, Skjalasafn Manitoba (1990-204)
Ævi: Ragnar Gislason fæddist í Elmwood í Manitoba þann 14. september, 1906. Foreldrar hans voru Hjálmar Gíslason frá Norður-Múlasýslu og Sigríður Björnsdóttir frá Suður-Múlasýsla. Ragnar lést 8. nóvember, 1997.
Lengd: 2:50
Umritun á upptöku:
Laurence Gillespie, spyrill: Skiptu bækur máli á þínu heimili?
Ragnar Gislason: Ó, já. Bækur skiptu mjög miklu máli. Hafa ber í huga, að síðar meir urðu þær að lifibrauði föður míns. Hann gerðist bóksali.
Laurence Gillespie: Hvað hét faðir þinn?
Ragnar Gislason: Hjálmar Gíslason.
Laurence Gillespie: Og var hann með bókabúð?
Ragnar Gislason: Já, á Sargent Avenue.
Laurence Gillespie: Hvenær var það?
Ragnar Gislason: Ætli það hafi ekki verið í kringum 1920 … 1919 … 1920. Og á þeim tíma, þegar leið hans lá fyrst á Sargent Avenue og við fluttumst í vesturhlutann, þá gaf hann út blað í samstarfi við aðra menn sem lifði í þrjú ár. Blaðið hét Voröld. Því svipaði til hinna, um var að ræða vikublað á borð við Lögberg og Heimskringla. Ekki margir í dag sem yfir höfuð vita að íslenskt blað var gefið út á Sargent Avenue. En sú var raunin. Ég man vel eftir prentvélunum og línusetningarvélunum. Fenginn var maður ofan af Íslandi til að sjá um setjaravélina; það þurfti að setja á íslensku, sjáðu til. Setjararnir héðan gátu ekki sett á íslensku, því þeir kunnu ekki málið. Gátu ekki lesið það. Svo þeir urðu að fá þennan náunga ofan af Íslandi.
Laurence Gillespie: Hvers vegna var þessu blaði hleypt af stokkunum? Hvað olli því?
Ragnar Gislason: Ekki gott að segja. Ég var ekki nógu gamall til að hafa áhuga á stjórnmálum í þá daga, en ég held að pólitík hafi ráðið því; pólitískur ávinningur. En ég hafði um annað að hugsa. Ég veit ekki hvað olli því, en blaðið … Það borgaði sig aldrei. Pabbi var ekkert sérstaklega laginn í viðskiptum, ekki þannig. Peningar skiptu hann litlu.
Laurence Gillespie: Hverjir voru með honum í þessu?
Ragnar Gislason: Látum okkur sjá … Sigurður Júlíus Jóhannesson — hann var ritstjórinn, að mig minnir, eða aðalsprautan, að minnsta kosti. Það voru fleiri sem komu við sögu en ég man ekki eftir þeim enda hafði ég áhuga á öðru. Ekki gleyma því að ég var 14 ára og hafði um annað að hugsa en íslenskt blað. En ég man þó eftir þessu.