Skrásetning sögunnar
Elstu íslensku dagblöðin og tímaritin sem gefin voru út í Manitoba teljast í dag til afar mikilvægra sögulegra heimilda. Á sínum tíma fjölluðu þau einkum um málefni líðandi stundar. Um aldamótin fór að bera á ákalli um að Íslendinga í Norður-Ameríku fjölluðu um og skrásettu sína eigin sögu.
Fyrsta íslenska útgáfan í Manitoba sem leitaðist meðvitað við að varðveita sögu Íslendinga í Norður-Ameríku var Almanak í ritstjórn Ólafs S. Thorgeirssonar. Fyrsti árgangur blaðsins birtist 1895 en á þeim tíma vann Ólafur enn sem prentari hjá Lögbergi. Eins og aðrar árbækur hafði það að geyma almanak ásamt hagnýtum upplýsingum um reglugerðir ríkisstjórnarinnar, landbúnað, dagskrá yfir viðburði í samfélaginu og dánartilkynningar.
Snemma fór Ólafur þess á leit við fólk í mismunandi landnemabyggðum að það skrásetti sögur úr sínu byggðarlagi. Í árgangi Almanaks frá 1899 mátti finna fyrstu frásögnina af þessum toga: „Safn til landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi: Landnám Íslendinga í Nýja-Íslandi“ eftir Guðlaug Magnússon. Í næsta árgangi, árið 1900, var að finna sögur af landnámi Íslendinga í Washington-eyju, Muskoka, Nova Scotia og Minnesota.
Ólafur birti þessar sögur úr samfélaginu sem hluta af föstum þætti sem hann kallaði „Safn til landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi“. Ekki leið á löngu þar til ævisögulegir þættir af íslenskum landnemum og fjölskyldum þeirra tóku að birtast í Almanaki. Ólafur lést árið 1937. Almanak hélt aftur á móti áfram að koma út allt til ársins 1954 þökk sé sonum hans, Geir og Ólafi Sigtryggi. Richard Beck sinnti skyldum ritstjóra.
Færa má rök fyrir því að Almanak sé mikilsverðasta einstaka heimildin um sögu Íslendinga í Norður-Ameríku sem birt var í Manitoba. Eigi að síður var fjöldi annarra sögulegra ágripa gefinn út. Á þriðja áratugnum leit Saga Íslendinga í Norður-Dakota dagsins ljós eftir Thorstínu Jackson auk þriggja bóka Þorleifs Jóakimssonar um sögu Nýja-Íslands. Fjöldi bóka sem gefnar voru út á Íslandi um þessar mundir sýnir að lesendur þar voru einnig áhugasamir um efnið.
Önnur stórmerk bók sögulegs eðlis er Minningarrit íslenskra hermanna, 1914–1918. Í bókinni er að finna ritgerðir og fjölda æviágripa til minningar um Vestur-Íslendinga sem börðust í fyrri heimsstyrjöldinni. Hún var gefin út af deild Jóns Sigurðssonar innan Imperial Order Daughters of the Empire, skammstafað IODE.
Samfélag Vestur-Íslendinga fór að leita aftur í ræturnar, sína sameiginlegu sögu, ríflega tuttugu árum, eða einni kynslóð, eftir að fyrstu landnemarnir komu. Útgáfa í Manitoba var mikilvægur vettvangur til að gera þetta að veruleika. Með Almanaki sínu ruddi Ólafur S. Thorgeirsson merka braut og aðrir fylgdu í kjölfarið.






