Skip to main content

Ritað um réttindi kvenna

Íslensk dagblöð og tímarit gerðu íslenskum innflytjendum í Norður-Ameríku kleift að aðlagast nýju umhverfi — í menningarlegu, pólitísku og félagslegu tilliti. Smám saman fór krafan um félagslegt réttlæti og aukinn sjálfsákvörðunarrétt að láta á sér kræla. Þar kom að íslensk blöð sem helguðu sig ákveðnum félagslegum og pólitískum málstað litu dagsins ljós.

 

Forsíða Freyju, kvennatímarits gefins út í Selkirk, Manitoba, í febrúar 1898. Hausinn ber titilinn Freyja í gotnesku letri, með áletruninni I. Ár. Nr. I., sem vísar til fyrsta árgangs og fyrsta tölublaðs. Síðan inniheldur íslenskan texta í tveimur dálkum umkringdum skrautlínum, þar sem ljóðið Til Kvenna er vinstra megin og inngangsgrein hægra megin.

Fyrsta tölublað Freyju, 1898

Ein merkasta útgáfan af þessu tagi var tímaritið Freyja. Það hóf útgáfu árið 1898 í Selkirk í Manitoba. Að baki tímaritinu stóðu Margrét Benedictsson og eiginmaður hennar, Sigfús. Margrét var ritstjóri og Sigfús sá um rekstur blaðsins. Freyja boðaði efnahagslegt, pólitískt og félagslegt jafnrétti kvenna; kosningarétt og rétt til jafns við karlmenn til að gegna stjórnunarstöðum.

 

Íslenskir innflytjendur komu frá landi þar sem kvennahreyfing hafði risið til nokkurra áhrifa. Íslenski innflytjendur í Manitoba, konur jafnt sem karlar, voru þegar farnir að fjalla um kosningarrétt kvenna í blöðum og á fundum um miðjan níunda áratug 19. aldar. Á árabilinu 1889–1890 hélt Sigfús Benedictsson fyrirlestra um frelsun kvenna í Winnipeg og Riverton. Margrét flutti sinn fyrsta fyrirlestur um jafnrétti kvenna í Winnipeg í febrúar árið 1893.

 

Svarthvít stúdíóandlitsmynd af fjölskyldu. Til vinstri situr kona, og fyrir aftan hana stendur eiginmaður hennar. Dóttir þeirra stendur hægra megin í kjól með blúndukraga, og yngri sonurinn stendur fyrir framan þau á milli foreldranna. Í bakgrunni er málaður stúdíóbakgrunnur, og öll eru þau klædd í formlegum klæðnaði í stíl við tíðarandann.

Margrét og Sigfús Benedictsson ásamt börnum þeirra

Fimm árum síðar leit fyrsta tölublað þeirra hjóna, Freyja, dagsins ljós. Í blaðinu var jafnan að finna greinar, ljóð, smásögur, skáldsögur sem birtust sem framhaldssögur, ævisöguleg skrif, gagnrýni, „barnahorn“ og skrá yfir viðburði í Íslendingasamfélaginu. Sjálf skrifaði Margrét margar greinar og sögur sem birtust í Freyju, stundum undir karlkyns dulnefni. Sigfús lét ekki sitt eftir liggja. Margrét þýddi einnig og birti skrif Elizabeth Cady Stanton, Lois Waisbrooker og Helen Gardener svo aðeins fáir málsvara kvenfrelsis séu nefndir.

 

Á öðru starfsári sínu var Freyja komin með um fimm hundruð áskrifendur. Árið 1902 fluttu Margrét og Sigfús til Winnipeg og héldu áfram að gefa út blaðið þar. Nokkrum árum síðar, eða í janúar 1908, varð Margrét einn af stofnendum og forseti samtaka um kosningarétt kvenna í borginni. Íslenskar konur bæði í Gimli og Argyle stofnuðu svipuð samtök strax í kjölfarið.

 

Upplýsingaskilti utandyra fest á málmstaur, staðsett meðal þurrra haustlauga innan afgirt svæðis. Á skiltinu er ljósmynd af manni í dökkum klæðnaði ásamt textablokki sem veitir sögulegan fróðleik. Fyrir aftan skiltið sjást málmgrindur og ljósleit bygging að hluta í bakgrunni. Svæðið er í hálfskugga með síaðri haustsólarbirtu.

Minningarskjöldur til heiðurs Margréti Benedictsson á Maryland Street í Winnipeg

Árið 1910 voru hvorki meira né minna en 1200 áskrifendur að Freyju sem dreifðust um Kanada, Bandaríkin og Evrópu. Það ár hætti blaðið óvænt útgáfu. Margrét og Sigfús höfðu skilið fjórum árum fyrr á forsendum sem komu ekki í veg fyrir að blaðið gæti haldið áfram að koma út. Í maí 1910 varð breyting þar á og blaðið steytti á skeri. Margrét flutti frá Winnipeg til Washington-fylkis árið 1912 og bjó þar til æviloka.

 

Breitt veggmyndaverk málað á múrvegg sem sýnir sögulegar senur úr West End-hverfi Winnipeg. Listaverkið inniheldur myndir af lestum, brú, verksmiðjum, hermönnum frá stríðsárum og þekktum staðbundnum fyrirtækjum eins og Safeway og Christie’s Biscuits. Áberandi er stór máluð forsíða Freyju, kvenna- og kosningaréttarblads, ásamt nútímalegum tískumyndum og iðnaðarmerkjum. Veggmyndin sameinar skær liti og söguleg smáatriði og dregur fram fjölbreyttan arf svæðisins.

Veggmynd í Winnipeg sem sýnir forsíðu Freyju

 

Íslendingar héldu áfram að styðja við bakið á kvenréttindabaráttunni í Manitoba. Baráttunni óx fiskur um hrygg árið 1912 þegar Jafnréttisbandalagið varð til. Fjórum árum síðar, 28. janúar 1916, samþykktu stjórnvöld í Manitoba lög sem gerðu konum kleift að kjósa og gegna opinberum stöðum í fylkinu. Vegna kynþáttar þurfi fjölmargir, konur og karlar, að bíða í marga áratugi, þar til þeim áskotnaðist þessi réttur.

 

Olga Skaftfeld segir frá viðhorfum fjölskyldu sinnar til kvenréttinda og baráttu fyrir jöfnum rétti kynjanna. Hægt er að hlusta á viðtalið og lesa það í íslenskri þýðingu.

 

Eins og aðrir innflytjendur voru Íslendingarnir beittir þrýstingi í því skyni að þeir tileinkuðu sér ríkjandi gildi í samfélaginu. Freyja og aðrar útgáfur sem höfðu réttindi verkamanna, sósíalisma, friðarboðskap og áfengisvarnir á sinni dagskrá eru til marks um merka andófshefð og baráttu í þágu málstaðar.